Fótbolti

Opnar sig um erfiða tíma og leitar til sálfræðings

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Richarlison hefur ekki átt sjö dagana sæla undanfarna mánuði.
Richarlison hefur ekki átt sjö dagana sæla undanfarna mánuði. Pedro Vilela/Getty Images

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Richarlison ætlar sér að leita sér hjálpar hjá sálfræðingi er hann snýr aftur til Englands að landsleikjahléinu loknu.

Richarlison gekk grátandi af velli er honum var skipt út af í 5-1 sigri brasilíska landsliðsins gegn Bólivíu síðastliðinn laugardag. Hann segir að ástæðan fyrir því sé að hann hafi þurft að koma ýmsum hlutum sem hafi verið að hrjá hann utan vallar út úr kerfinu. Hann hafi umkringt sig fólki sem hafi aðeins haft auga á peningum, en að hann sé á betri stað núna.

„Ég er búinn að ganga í gegnum erfiða tíma utan vallar síðustu fimm mánuði,“ sagði Richarlison í samtali við brasilíska miðilinn O Globo. „En nú er meiri stöðugleiki heima og ég er búinn að losa mig við fólkið sem hafði bara áhuga á peningunum mínum.“

Þessi 26 ára gamli Brasilíumaður gekk í raðir Tottenham fyrir síðasta tímabil fyrir um 60 milljónir punda. Hann hefur þó ekki fundið sig hjá Lundúnaliðinu og hefur hann aðeins skorað fjögur mörk í 40 leikjum fyrir liðið. Hann segist þó ætla að leita sér hjálpar og að hann muni koma sterkari til baka.

„Það er komið gott flæði á hlutina núna og ég er viss um að ég muni eiga góða tíma hjá Tottenham næstu mánuði og ég fari að láta hlutina gerast á ný.“

„Þegar ég sný aftur til Englands ætla ég að leita mér sálfræðihjálpar frá sálfræðingi til að styrkja hugann. Það er það sem þetta snýst um, að koma sterkari til baka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×