Íslandsmótið fór fram við frábærar aðstæður á Urriðavelli í Garðabænum um nýliðna helgi en um er að ræða fyrstu Íslandsmeistaratitla Loga og Ragnhildar á ferlinum.
Íslandsmeistaratitillinn var hins vegar ekki eini titillinn sem Logi hafði á brott með sér af Urriðavelli í gær því hann veitti Björgvinsskálinni viðtöku að móti loknu.
Björgvinsskálin er veitt þeim áhugamanni sem leikur á lægsta skori í kvenna- eða karlaflokki á Íslandsmótinu í golfi ár hvert.
Skálin hefur, frá árinu 2021, verið veitt til heiðurs Björgvini Þorsteinssyni, sem varð á sínum ferli Íslandsmeistari alls sex sinnum, en árið 2021 voru 50 ár liðin frá því að Björgvin varð í fyrsta sinn Íslandsmeistari í golfi.
Aron Snær Júlíusson var sá fyrsti sem fékk afhenta Björgvinsskálina eftir að hann varð Íslandsmeistari árið 2021. Það féll svo í skaut Kristjáns Þórs Einarssonar, Íslandsmeistara árið 2022 að veita Björgvinsskálinni viðtöku.