Fótbolti

Martröð fyrir Real Madrid

Sindri Sverrisson skrifar
Thibaut Courtois spilar sennilega ekkert með Real Madrid í vetur.
Thibaut Courtois spilar sennilega ekkert með Real Madrid í vetur. Getty/Burak Akbulut

Spænska stórveldið Real Madrid þarf að finna nýjan markvörð vegna tímabilsins sem er alveg að hefjast eftir að Belginn Thibaut Courtois, einn allra besti markvörður heims, sleit krossband í hné á æfingu.

Courtois meiddist á æfingu og er ljóst að hann þarf að fara í aðgerð, samkvæmt tilkynningu frá Real Madrid. Samkvæmt frétt The Athletic gæti í besta falli farið svo að Courtois snúi aftur til keppni í apríl á næsta ári en sennilegra er að hann spili ekkert á komandi leiktíð.

Courtois, sem er 31 árs, hefur varið mark Real frá því að hann kom frá Chelsea árið 2018, og unnið tvo Spánarmeistaratitla og einn Evrópumeistaratitil.

Real Madrid er núna aðeins með hinn 24 ára gamla Úkraínumann Andriy Lunin sem markvörð, þegar tveir dagar eru í að ný leiktíð hefjist með útileik gegn Athletic Bilbao. Hann hefur aðeins spilað níu deildarleiki fyrir Real síðan hann kom frá Shaktar Donetsk árið 2018.

Á meðal kosta sem eru í boði fyrir Real Madrid er Spánverjinn David de Gea sem félagið gæti fengið frítt eftir að samningur hans við Manchester United rann út. De Gea er uppalinn hjá Atlético Madrid og hóf þar sinn feril en flutti til Manchester árið 2011.

Meiðsli Courtois eru ekki aðeins áfall fyrir Real Madrid heldur einnig belgíska landsliðið fyrir Evrópumótið sem fram fer næsta sumar, en ekki er útilokað að hann geti spilað á því móti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×