Innlent

„Við erum ekki í kosningabaráttu, við erum í stjórnarsamstarfi“

Máni Snær Þorláksson skrifar
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir að Vinstri græn séu ekki byrjuð í kosningabaráttu. Hún missir ekki svefn yfir gagnrýni frá Sjálfstæðisflokknum.
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir að Vinstri græn séu ekki byrjuð í kosningabaráttu. Hún missir ekki svefn yfir gagnrýni frá Sjálfstæðisflokknum. Vísir/Vilhelm

Þingmaður Vinstri grænna kippir sér ekki upp við kenningar um að kosningamaskína Sjálfstæðisflokksins sé komin í gang. Hún segir sinn stjórnmálaflokk ekki vera í kosningabaráttu, þau einbeiti sér að ríkisstjórnarsamstarfinu.

„Ég get eiginlega ekki sagt það að þetta hafi nein sérstök áhrif á mig,“ segir Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, í Bítinu á Bylgjunni þegar rætt er um þá gagnrýni á Vinstri græn sem borist hefur úr herbúðum Sjálfstæðisflokksins að undanförnu.

Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði til að mynda að Sjálfstæðisflokkurinn gæti ekki tekist á við veigamikil og aðkallandi mál í samstarfi við Vinstri græna. Nefndi hann þar sem mál á borð við verðbólgu, orkumál og útlendingamál í samstarfi við Vinstri græna.

Þá sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á dögunum að ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um hvalveiðibannið hafi vægast sagt ekki haft góð áhrif á stjórnarsamstarfið. 

„Ef þú ert að vísa til þess hvort þetta setji stjórnarsamstarfið allt í loft upp þá myndi ég segja að það hefði gert það nú þegar,“ sagði Bjarni í samtali við hlaðvarpið Þjóðmál.

Missir ekki svefn yfir gagnrýninni

Sem fyrr segir þá kippir Steinunn Þóra sér ekki mikið upp við þessa gagnrýni Sjálfstæðismanna. „Ég er ekkert að missa svefn yfir því að Brynjar Níelsson, sem er ekki í ríkisstjórninni og er ekki einu sinni þingmaður, sé eitthvað fúll, það er bara allt í lagi,“ segir Steinunn.

Steinunni er þá bent á að gagnrýnin hafi nú komið úr fleiri áttum. Við því segir hún að starfið snúist í grunninn um að vinna vinnuna sína á Alþingi og ljúka málum.

„Þannig ef þeir vilja nota sumarfríið sitt til þess að pústa eða væla eða finnast þetta allt eitthvað voðalega erfitt þá bara þeir um það.“

Hefur þetta engin áhrif?

„Ég get eiginlega ekki sagt það að þetta hafi nein sérstök áhrif á mig. Ég er bara að undirbúa mig fyrir þingveturinn og við þurfum bara að sjá hvernig vinnan gengur þá. Það er það sem skiptir máli.“

Aðalatriðið sé að einbeita sér að stóru myndinni

Rætt er um það í þættinum að svo virðist vera sem kosningamaskína Sjálfstæðisflokksins sé komin í gang. Flokkurinn hafi til að mynda á dögunum kostað Facebook-færslu um það sem Bjarni sagði í hlaðvarpinu. Færsluna sem um ræðir má sjá hér fyrir neðan.

„Það er kominn kosningahamur í flokkana, greinilega, og þessi maskína Sjálfstæðisflokksins er áratuga gömul. Væri ekki bara barnalegt hjá ykkur að hunsa þessa maskínu sem er greinilega komin í gang?“ spyr Ómar Úlfur Eyþórsson, einn stjórnenda Bítisins.

Við því segir Steinunn að henni finnist aðalatriðið vera að „fókusera á stóru myndina.“ Flokkarnir þurfi svo að gera það upp við sig hvaða strategíu þeir ætli að hafa. 

„Við allavega í Vinstri grænum erum í þessu stjórnarsamstarfi núna af heilindum vegna þess að við höldum og trúum því að það skipti máli að það sé stöðugleiki hérna í landinu. Við verðum að vinna að því að ná niður verðbólgunni. Það virðast loksins vera teikn um að það sé að takast, það komu jákvæðar fréttir í sumar.“

Þá segir Steinunn að ekki sé búið að setja kosningamaskínu Vinstri græn í gang:

„Við erum ekki í kosningabaráttu, við erum í stjórnarsamstarfi. Við ætlum að vera í því svo lengi sem við erum í því. Mér finnst skipta máli að reyna að fjalla um málefnin sem við erum að vinna með. Þar skiptir einmitt hagur fólksins í landinu meginmáli. Ég held að það sé það sem í rauninni skiptir máli og það sem heldur til langs tíma litið, ekki að vera í einhverjum sandkassaleik.“

Ánægð með ákvörðun Svandísar

Einnig er farið yfir ákvörðun Svandísar um hvalveiðibannið í þættinum en ákvörðunin var afar umdeild. „Það hafa komið upp alls konar mál sem menn hafa ekkert verið alveg sammála um,“ segir Svandís við því.

„Ég held að Svandís hafi verið að gera þarna alveg gríðarlega góða hluti. Mér sýnist að allavega helmingur þjóðarinnar sé mjög ánægður með þessa ákvörðun.“

Þá segir Steinunn að það sé þannig í fjölflokka ríkisstjórn að ráðherrar geti gert ýmsa hluti. Þau í Vinstri grænum séu ekki búin að gleyma því að Jón Gunnarsson, fyrrverandi dómsmálaráðherra, hafi skrifað undir reglugerð sem heimilaði notkun á rafbyssum. 

„Við vorum ekkert ánægð með það og við gagnrýndum það. Þetta er bara eitt af þeim tólum sem ráðherrann hefur. Leikurinn er þannig að ráðherrar hafa svigrúm til að gera ýmsa hluti og þannig er það bara.“

Að lokum er Steinunn spurð hvort ríkisstjórnin eigi eftir að springa. „Ég ætla að vona það að þessi ríkisstjórn sitji út kjörtímabilið, ég ætla að vinna að því uns eitthvað annað kemur í ljós.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×