Innlent

Gísli Þór Guðmundsson er látinn

Árni Sæberg skrifar
Það var aldrei langt í gleðina hjá Gísla Þór.
Það var aldrei langt í gleðina hjá Gísla Þór. Álfrún Gísladóttir

Gísli Þór Guðmundsson, umboðsmaður fjölda þekktra hljómsveita og tónlistarmanna, er látinn aðeins 62 ára að aldri.

Gísli Þór lést í gær eftir erfiða hjartveiki. Frá þessu greinir Anna Hildur Hildibrandsdóttir, kvikmyndagerðarkona og ekkja Gísla Þórs, í færslu á Facebook. 

Hún segir að Gísli Þór hafi kvatt friðsamlega í svefni eftir að mikið veikt hjarta gaf sig. „Við stigum ölduna saman í ævintýrum lífsins í 42 ár. Það er mikill harmur að missa lífsförunaut og sálufélaga sem átti alltaf hlýjan faðm og stund fyrir áhugaverð og innihaldsrík samtöl,“ segir hún.

Hún segir lækna, hjúkrunarfólk og sjúkraflutningamenn hafa verið stóran hlut af lífi þeirra undanfarna þrjá mánuði og hjálpað þeim að eygja von til síðasta dags.

Gísli Þór hafi verið fullur af lífsvilja og húmor fram á hinstu stund og gjöf fjölskyldunnar hafi verið að fá þrjá mánuði til að kveðja hjartahlýjan og einstakan mann.

Gísli Þór starfaði um árabil sem umboðsmaður tónlistarfólks, og notaði nafnið Gis Von Ice á erlendri grundu. Undir hið síðasta var hann umboðsmaður íslensku hljómsveitanna Vök og For a Minor Reflection og tónlistarkonunnar Lay Low. Þá var hann umboðsmaður Hatara lengi.

Gísli Þór lætur eftir sig eiginkonu, tvær uppkomnar dætur og barnabörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×