Damir segir andstæðingana nokkuð breytta frá því á Kópavogsvelli í fyrra, þar sem upp úr sauð í leikslok og gestunum virtist þá sérstaklega uppsigað við Damir, sem er fæddur í Serbíu.
Damir vildi þó ekki meina að leikurinn í kvöld væri ávísun á sams konar læti og í fyrra, þar sem lögreglumenn voru viðstaddir og komu inn á völlinn í leikslok.
„Þetta verður krefjandi og erfitt, tvö mjög góð lið, þannig að þetta verður skemmtilegt,“ segir Damir.
„Þetta er svolítið breytt lið frá því í fyrra. Sterkari og kröftugri, og bara fullorðnari. Þetta er mjög gott lið,“ segir Damir sem reiknar ekki með því að upp úr sjóði eins og í fyrra.
„Nei, ég býst ekki við því. Ég er lítið búinn að spá í því hvað gerðist í fyrra. Maður horfir fram á veginn, og leikinn sem er fram undan.“ En hvernig metur Damir möguleika Blika fyrir kvöldið?
„Bara ágætlega góða. Þetta eru tvö mjög góð lið, bæði breytt frá því í fyrra, en ég tel möguleikana bara góða.“
Leikur Breiðabliks og Buducnost hefst klukkan 19 í kvöld og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Útsendingin hefst klukkan 18.45.