Lestarstjórarnir Erna Hrönn og Ómar Úlfur komu sér vel fyrir við Norska húsið, sem er Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla, þar sem þau voru í beinni útsendingu á Bylgjunni milli kl. 12 til 16.
„Það var mikið líf og fjör var í Hólminum á Dönskum dögum og virkilega gaman að fá að taka þátt í þessari rótgrónu hátíð,“ segir Erna Hrönn. „Veðrið lék við okkur og skemmtileg stemning myndaðist í kringum Bylgjulestina þar sem við fengum frábæra viðmælendur og áhugasama hlustendur í heimsókn. Þar sem Landsmótið fyrir 50 ára og eldri var haldið sömu helgi var algjörlega frábært að upplifa gleðina í kringum það.“

Hún segir einstakt að heimsækja bæinn yfir sumartímann. „Fyrir það fyrsta er Stykkishólmur með gríðarlega fallegt bæjarstæði sem gaman er að heimsækja. Við röltum upp á Súgandisey og útsýnið yfir bæinn og eyjarnar var ólýsanlega fallegt.“

Þau höfðu því miður ekki tíma til að fara í eyjasiglingu en hún bíður klárlega betri tíma að hennar sögn. „Við kynntumst hins vegar matarmenningunni og Ómar pantaði sér fisk af matseðli í fyrsta sinn á ævinni. Sjávarfangið var eins ferskt og það getur verið og gaman að smakka bláskel og hörpuskel nánast beint upp úr sjónum.“

Það kom þeim báðum á óvart hversu stutt er að rúlla í Hólminn úr borginni. „Það er því tilvalið að gera sér ferð hingað í sumar og fá sér gott að borða, jafnvel bara sunnudagsrúnt með fjölskyldunni.“
Geggjaðir matarvagnar frá Götubitanum voru á staðnum og boðið var upp á sápukúlufjör, andlitsmálningu, brjóstsykursgerð, brúðuleikhús og margt fleira. Samstarfsaðilar Bylgjunnar settu upp leiki og fyrstu krakkarnir sem mættu fengu gjafapoka.

Næsti viðkomustaður Bylgjulestarinnar er Akranes en þar verður hún laugardaginn 1. júlí.
Bylgjulestin, björt og brosandi um land allt í sumar.