Fyrir lokaumferð þýsku deildarinnar í dag var aðal spennan fyrir fram tengd við það hvort Bayern Munchen eða Wolfsburg myndi standa uppi sem þýskur meistari.
Leikmenn Bayern Munchen, með íslensku landsliðskonuna Glódísi Perlu Viggósdóttur í hjarta varnarinnar, sáu hins vegar til þess að spennan um meistaratitilinn varð nánast engin.
Glódís kórónaði flotta frammistöðu Bayern Munchen í dag með tíunda marki liðsins á 75. mínútu. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Cecilía Rán Rúnarsdóttir voru á meðal varamanna Bayern í leiknum, Karólína kom inn í upphafi seinni hálfleiks en Cecilía var ónotaður varamaður.
Sveindís Jane Jónsdóttir var í byrjunarliði Wolfsburg og lagði upp eitt marka liðsins í 2-2 jafntefli gegn Freiburg. Wolfsburg endar því í 2. sæti þýsku deildarinnar, fjórum stigum á eftir Bayern Munchen og einu stigi á undan Frankfurt sem tekur 3. sætið.