Fótbolti

„Spænska úrvalsdeildin tilheyrir rasistum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vinícius Junior fékk rautt spjald gegn Valencia.
Vinícius Junior fékk rautt spjald gegn Valencia. getty/Francisco Macia

Vinícius Júnior, leikmaður Real Madrid, segir að spænska úrvalsdeildin tilheyri rasistum eftir að hann varð fyrir kynþáttaníði í tapinu fyrir Valencia, 1-0, í gær.

Vinícius var rekinn af velli í uppbótartíma eftir að hann braut á leikmanni Valencia, Hugo Duro. Fyrr í leiknum hafði hópur stuðningsmanna Valencia beint apahljóðum að Vinícius.

„Deildin sem gat einu sinni státað sig af Ronaldinho, Ronaldo, [Cristiano] Ronaldo og [Lionel] Messi tilheyrir rasistum í dag,“ skrifaði Vinícius á Instagram í gærkvöldi.

„Þetta var ekki í fyrsta sinn, ekki annað og ekki þriðja. Rasismi hefur verið samþykktur í La Liga. Deildinni finnst þetta eðlilegt, spænska knattspyrnusambandinu líka og móherjar nýta sér það. Þetta fallega land sem bauð mig velkominn og ég elska er núna álitið rasískt. Ég finn til með Spánverjum sem eru ekki sammála en í dag er Spánn álitið rasískt land í Brasilíu. Því miður gerist þetta í hverri viku. En ég er sterkur og mun berjast allt til loka gegn rasistunum.“

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Real Madrid, finnst stjórnendur spænsku úrvalsdeildarinnar ekki gera nóg til að taka á kynþáttaníði á leikjum í deildinni. Dómari leiksins í gær stöðvaði hann ekki þegar Vinícius sagði honum frá kynþáttaníðinu sem hann varð fyrir.

,,Þú verður að stöðva leikinn við svona að­stæður," sagði Ancelotti. „Það er ekki hægt að halda á­fram við svona að­stæður. Ég sagði við dómarann að ég væri að í­huga að skipta leik­manninum af velli. Það er hugsun sem hefur aldrei áður skotið upp kolli hjá mér.“

Real Madrid er í 2. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar. Barcelona er búið að tryggja sér meistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×