Fótbolti

Häcken fyrst liða til að taka stig af Malmö

Smári Jökull Jónsson skrifar
Valgeir Lunddal Friðriksson var í byrjunarliði Häcken í dag.
Valgeir Lunddal Friðriksson var í byrjunarliði Häcken í dag. Vísir/Getty

Valgeir Lunddal Friðriksson var í byrjunarliði Häcken sem gerði jafntefli við Malmö FF í stórleik sænsku úrvalsdeildarinnar í dag.

Fyrir leikinn í dag hafði Malmö unnið alla átta leiki sína í deildinni til þessa en meistarar Häcken voru í öðru sæti, sex stigum á eftir. Það var því mikilvægt fyrir Häcken að koma í veg fyrir sigur Malmö í dag ef liðið ætlaði ekki að missa þá of langt fram úr sér.

Fyrri hálfleikurinn í dag var markalaus en í þeim síðari fór að draga til tíðinda. Even Hovland kom gestunum í Häcken yfir á 50. mínútu en Stefano Vecchia jafnaði metin fyrir Malmö þremur mínútum síðar.

Valgeir Lunddal var tekinn af velli á 69. mínútu en sjö mínútum síðar kom Benie Traore gestunum yfir með marki eftir sendingu Mikkel Rygaard. Það stefndi allt í sigur Häcken en heimamenn voru ekki búnir að játa sig sigraða.

Þremur mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma kom jöfnunarmarkið og var það sjálfsmark Johan Hammar varnarmanns Häcken. Markið var umdeilt því mjög erfitt var að sjá hvort boltinn hefði farið yfir línuna en engar markmyndavélar eru notaðar í sænsku deildinni og ekki heldur myndbandsdómgæsla.

Lokatölur 2-2 og Malmö tapaði þar með sínum fyrstu stigum í deildinni þetta tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×