Fótbolti

Risasigur hjá Sveini Aroni og Hákoni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sveinn Aron komst ekki á blað í kvöld.
Sveinn Aron komst ekki á blað í kvöld. Twittersíða Elfsborg

Sveinn Aron Guðjohnsen og Hákon Rafn Valdimarsson voru báðir í byrjunarliði Elfsborg sem vann 6-1 stórsigur í sænsku deildinni í dag. Fjölmargir Íslendingar voru í eldlínunni með sínum liðum.

Lið Elfsborg hefur farið vel af stað í sænsku deildinni í vor og var fyrir leikinn í dag með tíu stig eftir fimm umferðir. Þeir Hákon Rafn og Sveinn Aron voru báðir í byrjunarliði liðsins gegn Halmstad þar sem liðið vann 6-1 stórsigur.

Sveinn Aron komst ekki á blað í leiknum en hann var tekinn af velli á 72. mínútu í stöðunni 4-1. Hákon Rafn lék allan leikinn í marki liðsins.

Valgeir Lunddal Friðriksson var í liði Häcken sem vann 4-1 sigur á Djurgården á heimavelli sínum. Häcken vann sænska titilinn í fyrra og virðist sömuleiðis mæta sterkt til leiks á þessu tímabili. Valgeir var tekinn af velli á 87. mínútu en Häcken er í efsta sæti deildarinnar með fimmtán stig eftir sex leiki, jafn mörg og Malmö FF sem á leik til góða.

Aron Bjarnason var í byrjunarliði Sirius og Davíð Kristján Ólafsson sömuleiðis hjá Kalmar þegar liðin gerðu 2-2 jafntefli í Kalmar. Báðir léku þeir Aron og Davíð Kristján allan leikinn en Sirius jafnaði metin á sjöttu mínútu uppbótartíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×