Arnór kom sem stormsveipur inn í sænsku úrvalsdeildina á síðustu leiktíð, eftir að hafa losnað frá Venezia á Ítalíu. Hann er enn samningsbundinn rússneska félaginu CSKA Moskvu en komst að láni frá félaginu eftir að innrásin í Úkraínu hófst og hefur ekki snúið þangað aftur.
Sænski fótboltamiðillinn Fotbollskanalen lýsti Arnóri sem besta leikmanni sænsku deildarinnar eftir síðustu leiktíð og miðað við orð Besara er hann nokkuð sammála því.
Arnór geti gert hlutina upp á eigin spýtur
„Fyrir mér þá er Arnór kannski besti leikmaður deildarinnar. Hann er með hæfileikana til að gera hlutina algjörlega upp á eigin spýtur. Þess vegna er mikilvægt fyrir okkur, þann sem spilar sem hægri bakvörður, að fylgjast sérstaklega vel með honum. Við verðum að halda aftur af honum. Hann er virkilega frábær leikmaður og við verðum að gera okkar besta,“ sagði Besara.
Simon Strand hefur verið hægri bakvörður Hammarby í leikjunum fimm hingað til á tímabilinu. Fotbollskanalen spurði hann hvað hann þyrfti að hafa í huga gegn Arnóri en Strand vildi sem minnst gera úr því að glíman við Arnór yrði eitthvað óvenjuleg.
Strand: "Jag har inte så bra koll på Sigurdsson".https://t.co/vcb96hNlSO pic.twitter.com/MUKDaDkIgh
— Fotbollskanalen (@fotbollskanal) May 3, 2023
„Ég veit ekki. Ég spái ekki mikið í það hverjum ég mæti. Liðsheildin þarf að virka til að allt fari vel. Ég hugsa ekki um einhvern sérstakan leikmann sem ég mæti. Þetta er samvinna. En þetta er alveg góður leikmaður og við verðum að stoppa hann saman, sem og allt Norrköping-liðið,“ sagði Strand við Fotbollskanalen.
Spurður frekar út í Arnór og hvort hann væri sammála Besara um að Skagamaðurinn væri bestur í deildinni svaraði Strand: „Nei, ég veit það ekki. Ég fylgist ekki svo mikið með honum,“ og hann vildi svo engu svara um það í hverju Arnór væri góður.