Fótbolti

Vandræði meistaranna halda áfram

Smári Jökull Jónsson skrifar
Guðrún Arnardóttir í leik með FC Rosengård.
Guðrún Arnardóttir í leik með FC Rosengård. Vísir/Getty

Sænska meistaraliðið FC Rosengård hefur byrjað nýtt tímabil í sænsku úrvalsdeildinni illa. Í dag tapaði liðið gegn Djurgården og er því aðeins með eitt stig eftir þrjá fyrstu leikina.

Guðrún Arnardóttir er leikmaður FC Rosengård en liðið varð sænskur meistari á síðasta ári og lék í Meistaradeildinni í vetur þar sem liðið féll úr leik eftir riðlakeppnina.

Upphafið á nýju tímabili hefur hins vegar ekki verið eins og búist var við. Lið Rosengård byrjaði á að gera jafntefli við Piteå á heimavelli og fékk síðan skell gegn sterku liði Linköping í annari umferð.

Í dag mætti Rosengård liði Djurgården á heimavelli síðarnefnda liðsins í Stokkhólmi. Fyrir leikinn var Djurgården með einn sigur eftir tvo leiki en liðið hefur barist í neðri hluta deildarinnar síðustu árin.

Hayley Dowd kom heimaliðinu yfir strax í upphafi síðari hálfleiks með marki úr teignum eftir fyrirgjöf og Matilda Plan kom Djurgården í 2-0 á 65. mínútu þegar markvörður Rosengård missti hornspyrnu yfir sig og Plan potaði boltanum inn. 

Sænska landsliðskonan Olivia Schough minnkaði muninn í uppbótartíma fyrir Rosengård með marki beint úr aukaspyrnu en það dugði ekki til. Lokatölur 2-1 og leikmenn Djurgården fögnuðu vel í leikslok.

Liðið situr nú í þriðja neðsta sæti deildarinnar með aðeins eitt stig eftir þrjá leiki.

Guðrún Arnardóttir var í byrjunarliði Rosengård og lék allan leikinn í miðri vörninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×