Innlent

Ók á 170 á stolnum bíl

Árni Sæberg skrifar
Lögreglan veitti manninum eftirför um langan veg.
Lögreglan veitti manninum eftirför um langan veg. Vísir/Vilhelm

Karlmaður olli í gær mikilli hættu þegar hann ók stolnum bíl á allt að 170 kílómetra hraða á klukkustund þar sem hámarkshraði er sextíu kílómetrar á klukkustund. Lögregla veitti manninum eftirför í mikilli umferð og hann er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Þetta segir í dagbókarfærslu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir gærkvöldið og nóttina. Mbl.is greindi fyrst frá eftirförinni í gærkvöldi.

Í dagbókinni segir að tilkynning hafi borist úr hverfi 110 vegna manns sem reyndi að komast inn á stigagang fjölbýlishúss í hverfinu. Tilkynningunni fylgdi að maðurinn væri æstur og óskiljanlegur.

Þegar lögreglu bar að garði hafi ekkert bólað á manninum. Skömmu síðar hafi borist önnur tilkynning um að sami maður hefði komist inn á heimili í hverfinu, tekið þaðan bíllykla og ekið á brott á bílnum. Lögregla hafi síðan komið auga á bílinn og gefið ökumanninum merki um að stöðva för sína, sem hann hlýddi ekki.

Þá hafi hafist eftirför frá hverfi 110 alla leið í miðbæ Reykjavíkur. Í dagbók segir að mikil umferð hafi verið á þessum tíma og akstur mannsins stórhættulegur. Hann hafi ekið á 140 til 170 kílómetra hraða á klukkustund þar sem hámarkshraði er sextíu kílómetrar á klukkustund. 

Maðurinn gistir nú fangageymslu lögreglu í þágu rannsóknar málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×