Fótbolti

Daníel Guð­john­sen skrifar undir at­vinnu­manna­samning við Mal­mö

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Daníel Tristan Guðjohnsen hefur skrifað undir atvinnumannasamning við Malmö.
Daníel Tristan Guðjohnsen hefur skrifað undir atvinnumannasamning við Malmö. Malmö

Hinn 17 ára gamli Daníel Tristan Guðjohnsen hefur skrifað undir atvinnumannasamning við sænska úrvalsdeildarfélagið Malmö.

Félagið greinir frá þessu á Instagram-síðu sinni, en Daníel gekk í raðir Malmö síðastliðinn ágúst. Síðan þá hefur hann verið lykilmaður í U19 ára liði félagsins og fær nú atvinnumannasamning að launum.

Daníel Tristan er 17 ára gamall, fæddur árið 2006, og er yngsti sonur Eiðs Smára Guðjohnsen, fyrrum atvinnumanns, og Ragnheiðar Sveinsdóttur. Daníel og bræður hans stunda nú allir sína iðju í Svíaríki en Andri Lucas Guðjohnsen fór frá B-liði Real Madrid til Norrköping síðastliðið sumar og Sveinn Aron Guðjohnsen hefur leikið með Elfsborg síðan árið 2021.

Eins og áður segir hefur Daníel verið mikilvægur hlekkur í U19 ára liði Malmö, en leikmaðurinn hefur fengið nokkur tækifæri sem varamaður hjá aðalliðinu á undirbúningstímabilinu fyrir nýhafið tímabil. Þá var hann einnig á bekknum hjá liðinu í tveimur bikarleikjum í vor, gegn Degerfors og Djurgården.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×