Fótbolti

Segir að tími sinn sem stjóri City verði dæmdur út frá Meistara­deildinni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Pep Guardiola hefur enn ekki náð að vinna Meistaradeild Evrópu með Manchester City.
Pep Guardiola hefur enn ekki náð að vinna Meistaradeild Evrópu með Manchester City. Adam Davy/PA Images via Getty Images

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Manchester City, segir að tími sinn sem þjálfari liðsins verði dæmdur út frá því hvort liðinu takist að vinna Meistaradeild Evrópu undir hans stjórn.

Í stjóratíð Guardiola hefur City unnið ellefu titla síðan hann tók við liðinu árið 2016. Þar af hefur liðið orðið Englandsmeistari fimm sinnum og einu sinni hefur liðinu tekist að vinna ensku bikarkeppnina, FA-bikarinn.

Þrátt fyrir að hafa verið eitt af allra bestu liðum Englands undanfarin ár hefur Manchester City ekki enn unnið Meistaradeild Evrópu. Liðið komst ansi nálægt því tímabilið 2020-2021 þegar City fór alla leið í úrslitaleikinn sjálfan, en þurfti að sætta sig við tap gegn Chelsea.

„Þetta þýðir ekki að ég sé sammála því, en ég verð klárlega dæmdur út frá því,“ sagði Pep í dag, aðspurður að því hvort að hann yrði dæmdur út frá velgengni í Meistaradeildinni.

„Fyrir minn fyrsta leik í Meistaradeildinni með liðið sagði fólk að ég væri mættur hingað til að vinna þessa keppni. Ég var pínu hissa, en ég tek því. Það er sama hvað ég geri mikið hérna því það er ekki að fara að breytast.“

Guardiola er nú á sínu sjöunda ári sem knattspyrnustjóri Manchester City og liðið er komið í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu. Liðið tekur á móti RB Leipzig í seinni leik liðanna annað kvöld, en fyrri leikurinn endaði með 1-1 jafntefli. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 og hefst upphitun fyrir leikinn á slaginu klukkan 19:35.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×