Fótbolti

Hlín skoraði í endurkomusigri Kristianstad

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hlín Eiríksdóttir skoraði fyrra mark Kristianstad í dag.
Hlín Eiríksdóttir skoraði fyrra mark Kristianstad í dag. kdff.nu

Hlín Eiríksdóttir skoraði fyrra mark Íslendingaliðs Kristianstad er liðið vann 2-1 endurkomusigur gegn Linkoping í sænsku bikarkeppninni í fótbolta í dag.

Kristianstad, undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur, lenti undir snemma leiks, en Hlín jafnaði metin fyrir liðið þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka. 

Amanda Andradóttir kom inn af varamannabekknum á 81. mínútu og fimm mínútum síðar tryggði liðið sér 2-1 sigur með marki frá Evelyne Viens.

Kristianstad er því enn með fullt hús stiga eftir tvo leiki í riðli eitt í sænsku bikarkeppninni, en Linkoping situr í öðru sæti riðilsins með þrjú stig.

Þá sat Guðrún Arnardóttir á varamannabekk Rosengard er liðið vann öruggan 4-0 sigur gegn Alingsas í sama riðli. Rosengard er nú með þrjú stig eftir tvo leiki, en Alingsas er enn án stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×