Elísabet hefur verið við stjórnvölinn hjá Kristianstad í fjölda ára en með liðinu hafa fjölmargir Íslendingar leikið. Þrír íslenskir leikmenn eru í leikmannahópi þessa leiktíðina, Hlín Eiríksdóttir kom frá Piteå fyrir tímabilið og einnig eru þær Amanda Andradóttir og Emilía Óskarsdóttir hjá liðinu.
Þær Hlín og Amanda voru í byrjunarliðinu gegn Rosengård í dag og léku allan leikinn. Kristianstad komst yfir í fyrri hálfleik þegar Emmi Alanen kom þeim yfir á 24.mínútu.
Sænski bikarinn er leikinn í riðlakeppni áður en útsláttarkeppni hefst en auk liðanna tveggja eru Linköpings og Allingsås í sama riðli.
Í seinni hálfleik var hart barist en ekkert mark bættist við. Kristianstad fangaði því 1-0 sigri og sendir skýr skilaboð áður en deildarkeppnin hefst síðar í vor.