Fótbolti

Sprengdu flugelda fyrir utan hótel Real Madrid í Liverpool borg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Liverpool reyndu að trufla undirbúning Real Madrid manna fyrir leik kvöldsins.
Stuðningsmenn Liverpool reyndu að trufla undirbúning Real Madrid manna fyrir leik kvöldsins. Getty/Michael Regan

Stuðningsmenn Liverpool reyndu að trufla svefn leikmanna Real Madrid í nótt en framundan er mikilvægur fyrri leikur liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld.

Liverpool er að leita hefnda eftir tapið á móti Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrra þar sem stórsókn Liverpool liðsins bar ekki árangur og Real menn fögnuðu 1-0 sigri.

Daily Mail segir frá því að stuðningsmenn Liverpool hafi sprengt flugelda klukkan tvö í nótt að breskum tíma fyrir fram hótel á Albert Dock en þar gistir einmitt Real Madrid liðið.

Stuðningsmenn Liverpool eru ekki að gera þetta í fyrsta skiptið því þeir gerðu þetta einnig fyrir frægan leik á móti Barcelona árið 2019 þar sem Liverpool vann upp 3-0 forskot frá því í fyrri leiknum á Spáni.

Real Madrid liðið kom til Liverpool í gær og þetta var því fyrsta nótt liðsins í borginni. Liverpoll stuðningsmennirnir komust hins vegar að því hvar spænska liðið gisti.

Hvort þetta hafi mikil áhrif á leikmenn Real Madrid kemur í ljós í kvöld en leikurinn hefst klukkan 20.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2. Guðmundur Benediktsson lýsir leiknum beint frá Anfield.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×