Enski boltinn

Nike vill ekkert með Greenwood hafa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Framtíð Masons Greenwood hjá Manchester United er óráðin.
Framtíð Masons Greenwood hjá Manchester United er óráðin. getty/Cameron Smith

Mason Greenwood, leikmaður Manchester United, hefur ekki fengið nýjan samning við bandaríska íþróttavöruframleiðandann Nike þrátt fyrir að hann hafi ýjað að því.

Allar ákærur á hendur Greenwood voru felldar niður í síðustu viku. Hann var handtekinn fyrir rúmu ári, grunaður um að hafa beitt fyrrverandi kærustu sinni alvarlegu ofbeldi. Greenwood var ákærður fyrir nauðgunartilraun, líkamsárás og þvingunartilburði.

Hinn 21 árs Greenwood átti að mæta fyrir rétt í nóvember á þessu ári en ljóst er að ekkert verður af því eftir að málið var látið niður falla. Samkvæmt enskum fjölmiðlum dró lykilvitni sig til baka auk þess sem ný sönnunargögn komu fram.

Í kjölfar nýjustu vendinga í málinu breytti Greenwood upplýsingum á Instagram-síðu sinni þar sem hann setti nafn United auk Nike. Íþróttavöruframleiðandinn rifti samningi við Greenwood eftir að hann var handtekinn. Eftir breytingarnar á Instagram-síðu leikmannsins veltu ýmsir fyrir sér hvort Nike hefði opnað faðminn aftur fyrir honum.

Svo er ekki og Greenwood er ekki með samning við Nike. Þetta staðfesti talsmaður fyrirtækisins við Mirror.

Greenwood sendi frá sér yfirlýsingu eftir að ákærurnar gegn honum voru látnar niður falla. Þar sagði hann mikinn létti að málinu væri lokið og þakkaði fjölskyldu og vinum fyrir stuðninginn.

Greenwood hefur ekki leikið fyrir United síðan hann var handtekinn. Ákvörðun um framtíð hans hjá félaginu verður ekki tekin fyrr en eftir að rannsókn þess á máli hans lýkur.

Greenwood lék síðast fyrir United gegn West Ham United í ensku úrvalsdeildinni 22. janúar í fyrra. Alls hefur hann spilað 129 leiki fyrir United og skorað 35 mörk. Greenwood hefur leikið einn A-landsleik fyrir England, gegn Íslandi í Þjóðadeildinni haustið 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×