Fótbolti

Gummi Ben og Baldur í miðju Meistara­deildar­æði í Glas­gow

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Benediktsson og Baldur Sigurðsson á Ibrox.
Guðmundur Benediktsson og Baldur Sigurðsson á Ibrox. stöð 2 sport

Glasgow í Skotlandi iðar af lífi þessa dagana enda fara tveir leikir fram í borginni í Meistaradeild Evrópu á jafn mörgum dögum. Okkar menn, Guðmundur Benediktsson og Baldur Sigurðsson, eru í Glasgow og fylgjast þar með gangi mála.

Í kvöld fær Celtic RB Leipzig í heimsókn á Celtic Park og á morgun tekur Rangers á móti Liverpool á Ibrox. Þar fyrir utan mætir skoska kvennalandsliðið því írska í umspili um sæti á HM í Glasgow í kvöld.

Leikur Rangers og Liverpool er aðalleikur kvöldsins á morgun hjá Stöð 2 Sport og það leyndi sér ekki að þeir Gummi og Baldur hlakka til viðureignarinnar á Ibrox.

„Þeir hafa virkað ósannfærandi,“ sagði Baldur um Liverpool sem tapaði 3-2 fyrir Arsenal í ensku úrvalsdeildinni um helgina. 

„Það hefur mikið verið talað um að þeir séu með veika miðju og þurfi að styrkja sig þar. Það hljóta allir að vera sammála um að ein stærsta ástæðan fyrir velgengni Liverpool undanfarin ár og sérstaklega í fyrra, Mohamed Salah, hefur ekki fundið sitt fyrra form. Það ríður mikið á fyrir Liverpool að hlutirnir fari að smella hjá þeim. Það fer að verða of seint í deildinni en þeir eru enn á góðum stað í riðlakeppninni. Til þess að halda sér þar verða þeir að koma hingað og klára Rangers.“

Klippa: Gummi Ben og Baldur á Ibrox

Liverpool er með sex stig í 2. sæti A-riðils en Rangers í því fjórða án stiga. Liverpool vann leik liðanna í síðustu viku með tveimur mörkum gegn engu. Það var fyrsti leikur þessara stóru félaga frá upphafi.

Innslag Gumma og Baldurs frá Ibrox má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×