Eftir tap Breiðabliks gegn Selfossi í gær er Stjarnan með örlögin í eigin höndum og getur með sigri gegn Þór/KA í dag, og gegn Keflavík í lokaumferðinni, tryggt sér 2. sæti deildarinnar. Þar með færi Stjarnan í undankeppni Meistaradeildar Evrópu næsta haust, með tilheyrandi von um leiki við bestu lið álfunnar og evrur í kassann.
„Staðan breyttist auðvitað eftir úrslitin í gær og maður fann það alveg að stemningin á æfingunni í gær var aðeins öðruvísi. En hópurinn er mjög einbeittur. Við höfum unnið mjög faglega að okkar markmiðum allt keppnistímabilið og liðið staðið sig hrikalega vel,“ segir Kristján og minnir á að leikmenn megi ekki gleyma því að enn séu stór ljón í veginum fyrir því að Stjarnan nái Evrópusæti.
„Við munum ræða þetta aðeins á leiðinni og snertum aðeins á þessu í gær, á æfingunni. Það hefur í rauninni ekkert breyst. Við þurfum alltaf að vinna okkar leiki. Það er aukaatriði hvernig hinir leikirnir fóru en núna sjáum við aftur á móti að við erum komin upp á hólinn og þurfum að taka sverðin úr slíðrinu, og klára þetta skref sem liðið telur sig geta tekið.“
„Hefði nú verið fín að spila uppi á Brekku á nýjum plastvelli“
Stjarnan og Þór/KA áttu að mætast í gær en leiknum var frestað vegna veðurs. Nú er ljóst að leikurinn fer fram klukkan 17.30 og verður spilaður inni í Boganum.
„Það verður allt öðruvísi leikur en ef við hefðum spilað úti á grasvellinum en mér skilst að grasvöllurinn sé alveg farinn og ekkert hægt að spila á honum. Það hefði nú verið fínt að spila uppi á Brekku á nýjum plastvelli þar [á KA-svæðinu] en við stjórnum því ekki. Við höfum spilað í Boganum áður og þurfum aðeins að laga leik okkar að því,“ segir Kristján sem býr sig undir erfiðan leik á Akureyri í dag:
„Þór/KA lítur mjög vel út og hefur fengið sjö stig af níu úr síðustu þremur leikjum. Það er mikil orka, kraftur og hjarta í liðinu í síðustu þremur umferðum og mér finnst liðið vera í sínum besta kafla á mótinu núna. Þær líta mjög vel út. Það verður tekist á í þessum leik, það er alveg ljóst.“
Leikur Þórs/KA og Stjörnunnar hefst klukkan 17:30 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 4.
Besta deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 4.990 krónur á mánuði.