Enski boltinn

De Bruyne: Veit alltaf að sama hvað, þá er Haaland mættur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kevin De Bruyne og Erling Braut Haaland er blanda sem bara virkar.
Kevin De Bruyne og Erling Braut Haaland er blanda sem bara virkar. Sebastian Frej/MB Media/Getty Images

Kevin De Bruyne, leikmaður Englandmeistara Manchester City, hefur lagt upp fimm mörk í sjö leikjum í öllum keppnum það sem af er tímabils. Hann lagði upp fyrsta mark City er liðið vann 4-0 útisigur gegn Sevilla í Meistaradeild Evrópu fyrir Norðmanninn Erling Baut Haaland.

Þrjár af þessum fimm stoðsendingum Belgans hafa verið á Haaland og eins og kannski flestir bjuggust við þá er Kevin De Bruyne og Erling Braut Haaland blanda sem bara virkar. Eins og pylsa og kók eða Malt og Appelsín.

Eftir sigurinn gegn Sevilla í gær ræddi miðjumaðurinn einmitt um þessa tengingu þeirra félaga og sagði að hann gæti alltaf treyst á það að nýi liðsfélaginn sinn væri mættur til að taka við sendingum hans.

„Ég reyni bara að vinna mína vinnu. Taka réttu hlaupin og reyni að búa til eins mörg færi og ég get og ég veit alltaf að sama hvað, þá er Haaland mættur. Eins og staðan er núna þá er hann að skora mikið af mörkum og það hjálpar okkur að vinna leiki,“ sagði De Bruyne eftir sigurinn.

Eins og áhugafólk um enska knattspyrnu veit þá var Haaland keyptur til City fyrir um 60 milljónir evra fyrr í sumar. Einhverjir reyndu að vera sniðugir og spáðu því að einn besti framherji heims síðustu ár ætti eftir að þurfa tíma til að aðlagast fótboltanum hjá City, en hann hefur heldur betur afsannað það og skorað 12 mörk í sjö leikjum í öllum keppnum.

„Mér finnst hann hafa aðlagast okkar bolta mjög vel, en ég held að ef við horfum framhjá markaskorun þá sé annar hluti leiksins sem er kannski erfiðara að aðlagast,“ sagði De Bruyne um liðsfélaga sinn.

„Mér finnst það spennandi. Ef hann nær að aðlagast okkar leik enn betur, þá munu gæðin okkar aukast enn meira,“ sagði De Bruyne að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×