Innlent

Árni Gunnarsson látinn

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Árni Gunnarsson.
Árni Gunnarsson. Alþingi

Árni Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður og blaðamaður, er látinn 82 ára að aldri. Árni lést aðfaranótt föstudags. 

Árni fæddist á Ísafirði 14. apríl 1940. Foreldrar Árna voru Gunnar Stefánsson, fulltrúi hjá Ferðaskrifstofu ríkisins, og Ásta Árnadóttir, húsmóðir. Maki Árna var Hrefna Filippusdóttir en saman eiga þau tvær dætur, þær Sigríði Ástu og Gunnhildi. Mbl.is greindi frá andlátinu fyrst. 

Samkvæmt vef Alþingis lauk Árni Miðskólaprófi í Reykjavík og stundaði síðan flugnám um tíma. Þá kynnti sér fjölmiðla og blaðamennsku í Bandaríkjunum.

Árni var kjörinn alþingismaður Norðurlands eystra fyrir Alþýðuflokkinn og sat hann á þingi 1978-1983 og 1987-1991. Þá var hann forseti neðri deildar árin 1979 og 1989 til 1991.

Árni var blaðamaður við Alþýðublaðið og síðar fréttastjóri árin 1959 til 1965. Einnig var hann fréttamaður og fréttastjóri við Ríkisútvarpið og Vísi árin 1965–1976. Hann var fréttamaður Ríkisútvarpsins á vettvangi þegar eldgos hófst í Heimaey í janúar 1973 og skrifaði bókina Eldgos í Eyjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×