Peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði meginvexti sína úr 2,75 prósentum í 3,75 prósent í gær til að vinna gegn aukinni verðbólgu. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir alla þurfa að halda aftur af sér í verðhækkunum, líka smávöruverslunin.
„Sá hvati skapast alltaf þegar verðbólga er byrjuð að aðhald minnkar í fyrirtækjarekstri og samkeppni minnkar vegna þess að það verður miklu auðveldara að hækka verðið. Velta út kostnaðarhækkunum og svo framvegis. Þannig að það er eitthvað sem við óttumst. Þess vegna skiptir máli að við getum haldið eins miklu aðhaldi og hægt er í verslun- og þjónustu og atvinnulífinu,“ segir Ásgeir.

Seðlabankinn spáir áframhaldandi verðbólgu og hún verði komin úr 7,2 prósentum nú í rúm átta prósent á næsta ársfjórðungi. Ásgeir telur efnahagslífið þó ekki komið í kreppuverðbólgu en þótt ekki sé hægt aðútiloka að verðbólgan nái að fara í tveggja stafa tölu. Ekki liggi fyrir hvernig stríðiðí Evrópu muni þróast og hver áhrifin yrðu á matvælaverð ef uppskera haustsins berist ekki á markað.
„Við vitum það ekki. Þetta veltur líka á því hvernig fasteignamarkaðurinn mun bregðast við þessari (vaxta) hækkun. Hvort við náum að hægja á honum. Þannig að ég á ekki von á því en það er ekki hægt að útiloka það,“ segir seðlabankastjóri.
Nú geti Seðlabankinn hins vegar haft heimil á verðbólgu með vaxtahækkunum en á tímum óðaverðbólgunnar á níunda og tíunda áratug síðustu aldar hafi bankinn ekki haft slíkar heimildir. Spurningin sé hversu mikið það muni kosta þjóðina.
„Af því að það er auðvitað miklu auðveldara ef við náum að vinna með vinnumarkaðnum, ríkinu og atvinnulífinu að ná henni niður. Þannig að við þurfum ekki að keyra hagkerfið í kreppu til að ná verðbólgunni niður,“ segir Ásgeir Jónsson.