Fótbolti

Tíu leikmenn Atlético Madrid stálu sigrinum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Spænsku meistararnir eru enn á góðri leið með að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.
Spænsku meistararnir eru enn á góðri leið með að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili. Diego Souto/Quality Sport Images/Getty Images

Spánarmeistarar Atlético Madrid unnu dramatískan 2-1 sigur er liðið tók á móti Espanyol í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag, en sigurmarkið var skorað með seinustu spyrnu leiksins.

Eftir heldur bragðdaufan fyrri hálfleik kom Yannick Carrasco heimamönnum í Atlético yfir snemma í þeim síðari eftir stoðsendingu frá Matheus Cunha.

Heimamenn neyddust svo til að spila seinustu tuttugu mínútur leiksins manni færri eftir að Geoffrey Kondogbia handlék knöttinn og nældi sér þar með í sitt annað gula spjald. Ekki bætti svo úr skák þegar Raul de Tomas skoraði beint úr aukaspyrnunni sem var dæmd og staðan því orðin jöfn á ný.

Raul de Thomas átti eftir að koma meira við sögu í leiknum, en á sjöttu mínútu uppbótartíma handlék hann knöttinn innan eigin vítateigs og vítaspyrna dæmd. Yannick Carrasco fór á punktinn og tryggði spænsku meisturunum sigurinn með seinustu spyrnu leiksins.

Niðurstaðan varð því dramatískur 2-1 sigur Atlético Madrid. Liði situr í fjórða sæti deildarinnar með 60 stig eftir 32 leiki, jafn mörg og Barcelona og Sevilla sem sitja í öðru og þriðja sæti.

Espanyol situr hins vegar í 11. sæti með 39 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×