Fyrir leikinn voru þrjú lið jöfn á toppnum, en ásamt Schalke höfðu St. Pauli og Werder Bremen öll 53 stig. St. Pauli hafði þó leikið einum leik meira og því var dauðafæri fyrir bæði Schalke og Werder Bremen að skilja samkeppnisaðilann eftir.
Leikurinn hófst þó ekki nægilega vel fyrir Guðlaug Victor og félaga því heimamenn náðu forystunni strax á 11. mínútu, en gestirnir í Schalke jöfnuðu þó metin aðein þremur mínútum síðar.
Á 24. mínútu kom Guðlaugur Victor inn af varamannabekknum fyrir meiddann Danny Latza og fimm mínútum síðar var liðið komið með 2-1 forystu. Sú forysta lifði þó ekki lengi því heimamenn jöfnuðu örfáum mínútum síðar, áður en Marius Bulter sá til þess að gestirnir í Schalke fóru með 3-2 forystu inn í hálfleikinn.
Guðlaugur Victor lagði svo upp fjórða mark Schalke snemma í síðari hálfleik, en þar var Marius Bulter aftur á ferðinni. Bulter fullkomnaði svo þrennu sína eftir klukkutíma leik og gerði þar með út um leikinn.
Niðurstaðan varð 5-2 útisigur Schalke, en á sama tíma gerði Werder Bremen jafntefli. Schalke trónir nú á toppi þýsku B-deildarinnar þegar aðeins fjórar umferðir eru eftir og er á góðri leið með að tryggja sér sæti í efstu deild á næsta tímabili.
Efstu tvö lið deildarinnar fara beint upp, en liðið sem hafnar í þriðja sæti fer í umspil. Guðlaugur Victor og félagar eru þó ekki búnir að tryggja þetta enn. Pakkinn er þéttur og aðeins sex stig skilja þá frá Nurnberg sem situr í fimmta sæti deildarinnar.