Þýska knattspyrnusambandið DFB segir að mistök fjórða dómara leiksins hafi ollið því að Bayern lék með of marga leikmenn í nokkrar sekúndur og því verði liðinu ekki refsað fyrir klúðrið.
Undir lok leiksins gerðu þýsku meistararnir tvöfalda breytingu þegar Marcel Sabitzer og Niklas Süle komu inn af varamannabekknum fyrir þá Kingsley Coman og Corentin Tolisso.
Fjórði dómarinn gerði hins vegar mistök þegar skiptingin átti sér stað og sýndi vitlausa tölu á spjaldi sínu. Það varð til þess að Kingsley Coman vissi ekki að hann átti að fara af velli.
Samkvæmt reglum deildarinnar þurftu forsvarsmenn Freiburg að senda inn formlega kvörtun til þýska knattspyrnusambandsins til að hægt væri að refsa Bayern fyrir atvikið. Ef DFB hefði komist að þeirri niðurstöðu að þýsku meistararnir væru sekir í þessu máli hefði mögulega verið hægt að dæma Freiburg sigur í leiknum.
DFB hefur hins vegar vísað málinu frá og 4-1 sigur Bayern stendur því enn. Bayern er með sex stiga forskot á toppi þýsku deildarinnar þegar liðið hefur leikið 28 leiki. Nú þegar sjö leikir eru eftir þarf Bayern aðeins tíu stig til að tryggja sér þýska meistaratitilinn tíunda árið í röð.