Lea Schuller skoraði fyrsta mark leiksins á 48. mínútu og við það opnuðust flóðgáttirnar. Viviane Asseyi breytti stöðunni í 2-0 tveimur mínútum síðar , áður en Hanna Glas skoraði þriðja mark liðsins á 66. mínútu.
Tveimur mínútum síðar skoraði Lea Schuller sitt annað mark og fjórða mark Bayern, og stundarfjórðung fyrir leikslok fullkomnaði hún þrennu sína.
Það var svo Saki Kumagai sem gulltryggði 6-0 sigur Bayern í uppbótartíma. Glódís Perla Viggósdóttir lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Bayern og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir kom inn af varamannabekknum þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka. Cecilia Rúnarsdóttir sat allan tíman á bekknum.
Bayern trónir á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar með 37 stig eftir 15 leiki, tveimur stigum meira en Wolfsburg sem á leik til góða.