Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ræddi við fréttastofu frá London, þar sem hún er nú stödd.
„Fundir síðustu daga hafa verið með varnarmálaráðherrum þessara ríkja og hljóðið er mjög þungt, og hefur þyngst mjög, sérstaklega síðastliðinn sólarhring,“ sagði Þórdís Kolbrún og bætti við að svartsýnustu sviðsmyndir um stöðuna væru nú að raungerast.
Verði að hafa afleiðingar
Þórdís segir ljóst að athæfi Rússa í Úkraínu sé brot á alþjóðalögum sem ekki megi láta óátalið.
„Þessi háttsemi verður að hafa afleiðingar, það er ekki nóg að sýna samstöðu í orði eða tístum, heldur þarf það að vera á borði, það þarf að vera í ákvörðunum. Þær ákvarðanir eru til að mynda þessar efnahagslegu þvinganir sem bæði Evrópusambandið, Bretland og Bandaríkin, og svo þjóðir með Evrópusambandinu ætla að sameinast um og hafa gert. Það skiptir máli, því þetta þarf að hafa afleiðingar,“ segir utanríkisráðherrann.
Hún segir mikilvægt að alþjóðalög séu virt, sem og landamæri og lögsaga ríkja. Hér sé um skýrt brot á alþjóðalögum að ræða og það verði að hafa afleiðingar. Íslenska ríkið sé með í þeirri vegferð.
Staðan ekki verið verri í áratugi
Utanríkisráðherra segist þá telja að ógn stafi af þeim aðstæðum sem skapast hafa í Úkraínu.
„Fyrst og síðast eru þetta miklar afleiðingar fyrir óbreytta borgara í Úkraínu. Svo veit maður ekki hver atburðarásin verður, þannig að við erum komin með þetta ástand inn í álfuna og það eru þarna nágrannaþjóðir við Úkraínu sem eru einfaldlega NATO-ríki, Evrópusambandsríki, þannig að staðan er einfaldlega alvarleg.“
Hún segir atburði síðasta sólarhrings vera í takt við svartsýnustu spár.
„Þrátt fyrir að leiðir fyrir diplómatíska lausn séu alltaf opnar þá má alveg segja að þessar alvarlegri sviðsmyndir séu að raungerast og staðan hefur ekki verið eins alvarleg í áratugi á þessu svæði,“ segir Þórdís Kolbrún.