Fótbolti

Skorað þrennu í fjórum af fimm bestu deildum Evrópu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pierre-Emerick Aubameyang skoraði þrennu um helgina.
Pierre-Emerick Aubameyang skoraði þrennu um helgina. Quality Sport Images/Getty Images

Pierre-Emerick Aubameyang skoraði þrennu í 4-1 sigri Barcelona á Valencia í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta um helgina. Hann hefur nú skorað þrennu i fjórum af fimm bestu deildum Evrópu.

Aubameyang – sem gekk nýverið í raðir Börsunga frá Skyttunum – skoraði þrjú af fjórum mörkum Barcelona er liðið vann stórsigur um helgina. Hann vissi lítið af þrennunni þar sem þriðja markið var ekki skráð á hann fyrr en að leik loknum.

Þennan þýðir að hinng 32 ára gamli Aubameyang er eini leikmaðurinn á þessari öld til að skora þrennu í fjórum af fimm sterkustu deildum álfunnar.

Fyrsta þrennan kom í febrúar 2012 er hann lék með Saint-Étienne í Frakklandi. Tæpu ári síðar gekk framherjinn til liðs við Borussia Dortmund og það tók hann ekki langan tíma að stimpla sig inn í þýsku úrvalsdeildina. Hann skoraði þrennu í sínum fyrsta leik fyrir félagið.

Eftir að hafa gengið til liðs við Arsenal í janúar 2018 þá þurfti Aubameyang að bíða dágóða stund þangað til hann skoraði þrennu í ensku úrvalsdeildinni. Hún kom loks gegn Leeds United í febrúar á síðasta ári er Arsenal vann 4-2 sigur.

Áður hafði Aubameyang skorað þrennu í Evrópudeildinni, líkt og um helgina var það gegn Valencia.

Sigur helgarinnar þýðir að Barcelona er í 4. sæti La Liga, spænsku úrvalsdeildarinnar, með 42 stig. Er það fjórum stigum minna en Real Betis sem situr í 3. sætinu eftir að hafa leikið leik meira.

Talið var að Börsungar væru að skjóta sig í fótinn með að sækja útbrunninn Aubameyang í janúarglugganum en ef marka má leikinn gegn Valencia virðist framherjinn frá Gabon eiga töluvert eftir í tankinum og hver veit nema hann bæti við annarri þrennu áður en tímabilinu lýkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×