Handbolti

Viktor Gísli bað danskan samherja sinn um hjálp

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson ver skot í leiknum gegn Króatíu í gær.
Viktor Gísli Hallgrímsson ver skot í leiknum gegn Króatíu í gær. getty/Kolektiff Images

Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður íslenska handboltalandsliðsins, bað danskan samherja sinn hjá GOG um greiða fyrir lokaumferð milliriðils I á EM á morgun.

Ísland á enn möguleika á að komast í undanúrslit Evrópumótsins. Til að það gerist þurfa Íslendingar að vinna Svartfellinga og vonast eftir að Danir vinni Frakka. Danska liðið er hins vegar komið áfram og Nikolaj Jacobsen, þjálfari þess, hefur gefið út að hann muni hvíla lykilmenn í leiknum á morgun.

Íslendingar halda þó í vonina og í samtali við TV 2 sagðist Viktor Gísli vonast eftir hjálp frá Mathias Gidsel og félögum hans í danska landsliðinu. Viktor Gísli og Gidsel eru samherjar hjá GOG í Danmörku.

„Að sjálfsögðu vonum við að Danir vinni. Ég trúi því að þeir geri það og að samherji minn Gidsel muni hjálpa til við það,“ sagði Viktor Gísli sem ætlaði að senda Gidsel skilaboð. „Ég geri það til að senda auka pressu á hann.“

Alls óvíst er hvort Gidsel spili leikinn á morgun en Jacobsen gæti hvílt hann eins og hann gerði gegn Norður-Makedóníu í lokaumferð riðlakeppninnar. Varamaður hans, Niclas Kirkeløkke, skoraði reyndar níu mörk í leiknum.

Gidsel segir að Danir spili alltaf til sigurs, sama hver er inni á vellinum og Frakkar eigi erfitt verkefni fyrir höndum á morgun.

„Við verðum að sjá til hvort að ég spili. En það er alveg öruggt að Danmörk fer aldrei inn á völlinn til þess að tapa handboltaleik. Hvort sem að það verður ég eða einhverjir aðrir sem að spila þá verðum við með mjög gott lið sem Frakkar geta ekkert vaðið yfir,“ sagði Gidsel sem hefur verið magnaður á EM og aðeins klikkað á einu skoti á öllu mótinu. Hann skoraði til að mynda níu mörk úr níu skotum í sigri Dana á Íslendingum, 24-28.


Tengdar fréttir

Danir fóru illa með væng­brotna Hollendinga

Heimsmeistararnir áttu ekki í miklum vandræðum með vængbrotið lið Hollands er liðin mættust í milliriðli á Evrópumótinu í handbolta í kvöld. Danir unnu leikinn með tólf marka mun, lokatölur 35-23.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×