Arnar Þór Jónsson, fyrrverandi héraðsdómari og núverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur gagnrýnt stefnu stjórnvalda í málefnum faraldursins með margvíslegum hætti.

Varaþingmaðurinn hefur rekið mál gegn sóttvarnalækni vegna sóttkvíar og einangrunar covid-sjúkra, hann hefur líkt faraldrinum við Trójuhest sem kippi lýðræðinu úr sambandi og hann hefur sent langorð viðvörunarbréf til skólayfirvalda vegna bólusetninga barna.
Hann tókst á við Tómas Guðbjartsson lækni í Sprengisandi í desember og krafði Tómas svara um bólusetningar:
„Það er engin gagnrýni. Og ég lýsi eftir því að [læknar] axli ábyrgð. Ég vil spyrja Tómas einfaldrar spurningar. Nú erum við í upptöku og þessi upptaka verður til á netinu um ókomna tíð. Ert þú tilbúinn að segja í ljósi þess sem þú sagðir áðan og skrifa undir það að þessi bóluefni sem nú á að nota á Íslendinga og gagnvart börnum, séu örugg og árangursrík? Þú verður að gera það,“ sagði Arnar meðal annars.
Ekki verið að tala fyrir hönd flokksins
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir Arnar ekki hafa komið að máli við sig um þetta efni á síðustu mánuðum. Á fyrri stigum hafi þeir þó rætt mikilvægi lögmætisreglunnar, meðalhófs, að verið væri að veita réttar upplýsingar og svo framvegis.
„Ég er nú sammála því að þetta eru allt mikilvæg sjónarmið en hann er ekki að tala fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins þegar hann sem lögmaður er að tala fyrir hönd einhverra hagsmunasamtaka,“ segir Bjarni.
Stefna Sjálfstæðisflokksins hafi verið nokkuð skýr í þessu, flokkurinn hafi viljað opna umræðu um málið og aðkomu þingsins. Ágætis samstaða hafi verið í ríkisstjórn.
„En ég þekki bara ekki nákvæmlega áherslur þeirra hagsmunasamtaka sem Arnar hefur verið að tala fyrir og ætla ekki að gera þær að mínum. Ég er meira fyrir bólusetningar, ég tel þær hafa sannað ótvírætt gildi sitt. Ég er sjálfur þríbólusettur og eina ástæða þess að ég hef ekki látið bólusetja tíu ára dóttur mína er að hún er búin að smitast. Það bíður þá seinni tíma ef á þarf að halda. Þannig að þarna er ekki verið að flytja boðskap sem ég tek undir,“ segir Bjarni.