Handbolti

Frá Tene til Búdapest

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Vignir er óvænt mættur til Búdapest og nýtur þess.
Vignir er óvænt mættur til Búdapest og nýtur þess. mynd/hsí

Vignir Stefánsson, hornamaður Vals, kom óvænt inn í íslenska liðið fyrir leikinn gegn Frökkum. Fékk að spila og stóð sig vel.

„Það hefur tekið nokkra klukkutíma að ná mér niður. Þetta var rosalegur rússíbani í gær. Þetta gerðist ansi hratt. Ekki bara að fá kallið heldur að vera kominn inn á gólfið í leik gegn Frökkum með þessa forystu,“ segir Vignir en Covid-smit íslenska liðsins urðu þess valdandi að hann þurfti að koma hratt til Ungverjalands.

„Maður fylgdist með og fór að setja mig í stellingar þegar það kom smit í horninu. Svo kemur bara símtalið og maður spurður hvort það sé möguleiki að ég vilji koma út í þessar aðstæður. Það var sjálfsagt mál.“

Vignir hafði skömmu áður verið að njóta lífsins á Tenerife ásamt hálfri þjóðinni.

„Ég get viðurkennt að ég fékk aukafrí hjá Val eftir alla törnina og hafði það huggulegt á Tene ásamt fjölda Íslendinga en hreyfði mig að sjálfsögðu líka í fríinu.“

Hornamaðurinn er eðlilega enn að ná áttum eftir síðustu sólarhringa en hann mun aldrei gleyma þessum leik gegn Frökkum.

„Þetta var geggjað. Maður fattaði ekki hvað var í gangi fyrr en eftir leik. Maður gleymdi sér í leiknum sem var geðveikt.“

Klippa: Vignir kom til Búdapest eftir frí á Tene



Fleiri fréttir

Sjá meira


×