Flóðgáttirnar opnuðust í ótrúlegri endurkomu Kórdrengja

Snorri Rafn Hallsson skrifar
kór ármann

Það var ekki fjölbreytninni fyrir að fara í kortavali liðanna í þessari umferð og fóru Kórdrengir og Ármann beinustu leið í Nuke. Fyrri leik liðanna lauk með 16-3 sigri Ármanns í Mirage og þegar ofan á það bætist að hér mættust bræðurnir Ofvirkur og Hyperactive er óhætt að segja að rígur hafi ríkt á milli liðanna. 

Tveir nýir leikmenn hafa bæst í hóp Ármanns, þeir KiddiDisco og Snowy sem léku við hlið Ofvirks, Vargs og Kruzer. Í hópi Kórdrengja voru svo að vanda þeir Xeny, Demantur, Hyperactive, Blazter og Snky.

Ármann vann hnífalotuna og byrjaði í vörn (Counter-Terrorists) en Kórdrengir hófu leikinn í sókn. Fyrstu þrjár loturnar féllu skjótt og örugglega í hlut Kórdrengja sem mættu til leiks af miklum eldmóði. Nýliðarnir KiddiDisco og Snowy stöðvuðu hins vegar hraða sókn Kórdrengja í fjórðu lotunni og var Vargur með fjórfalda fellu í þeirri fimmtu til að klóra örlítið í bakkann. Svo fór að Ármann skellti vörninni algjörlega í lás í vörninni og urður Kórdrengir nokkuð ráðalausir við það. 

KiddiDisco dró vagninn fyrir Ármann og átti fjölmargar margfaldar fellur sem reyndust Kórdrengjum erfiðar. Einvígin féllu með Ármanni og Kórdrengir komust sjaldan í þá stöðu að geta ógnað þeim eitthvað af viti. Efnahagur þeirra var slæmur miðað við banka Ármanns sem byggðist upp hratt og örugglega í takt við loturnar sem Ármann raðaði inn í fyrri hálfleik.

Staða í hálfleik: Kórdrengir 5 - 10 Ármann

Eitthvað gerðu Kórdrengir í leikhléinu til að hysja upp um sig buxurnar því það var engu líkara en að allt annað lið væri mætt til leiks þegar Kórdrengir skiptu yfir í vörnina. Snky tryggði Kórdrengjum fyrstu tvær loturnar í síðari hálfleik með fjórfaldri fellu í þeirri sautjándu og upp frá því skiptust Kórdrengir á að stráfella leikmenn Ármanns sem engar glufur fundu. Þannig náði Xeny einnig fjórfaldri fellu og hver Kórdrengur á fætur öðrum hitti eins og enginn væri morgundagurinn. 

Skal Snky og Hyperactive sérstaklega hrósað fyrir þeirra framlag í að opna og loka lotum með stórum og mikilvægum aðgerðum sem gerðu það að verkum að Ármann vann ekki eina einustu lotu í síðari hálfleik. Með því að virkja einhvern fítonskraft sem enginn vissi að byggi innra með þeim tókst Kórdrengjum að vinna sína aðra viðureign á tímabilinu, en ljóst er að þetta verða þeir að leika oftar ætli þeir sér að komast upp úr neðsta sætinu áður en yfir lýkur.

Lokastaða: Kórdrengir 16 - 10 Ármann

Staða Ármann versnar með hverjum ósigrinum og eru þeir komnir óþægilega nálægt botnsætunum eftir þetta tap. Það var þó bót í máli að Ofvirkur hafði betur 4-3 gegn bróður sínum Hyperactive í einvígunum þeirra á milli. Í næstu viku mætir ÁrmannFylki, þriðjudaginn 25. janúar, en föstudaginn þann 28. janúar mæta Kórdrengir Sögu. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir