Handbolti

Segja slæmt fyrir mótið að Ungverjar hafi ekki farið áfram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ungverjar voru að vonum súrir og svekktir eftir tapið fyrir Íslendingum.
Ungverjar voru að vonum súrir og svekktir eftir tapið fyrir Íslendingum. epa/Tamas Kovacs

Sérfræðingar TV2 segja að það sé slæmt fyrir framhald Evrópumóts karla í handbolta að heimalið Ungverjalands sé úr leik.

Ísland tryggði sér sæti í milliriðli með sigri á Ungverjalandi, 31-30, í lokaumferð riðlakeppninnar í gær. Eftir sigur Hollands á Portúgal var svo ljóst að Ungverjaland væri úr leik.

Íslandsvinurinn Bent Nyegaard, sérfræðingur TV2, hrósaði Íslendingum fyrir frammistöðu sína í gær en sagði að það væri ekki gott fyrir EM að Ungverjar væru úr leik.

„Þetta er versta mögulega niðurstaða fyrir heimaliðið að það komist ekki einu sinni í milliriðla. Það er slæmt fyrir ungverskan handbolta og slæmt fyrir Evrópumótið,“ sagði Nyegaard.

„Þetta er hins vegar frábært fyrir íslenskan handbolta að liðið skildi vinna svona mikilvægan leik frammi fyrir tuttugu þúsund áhorfendum.“

Daniel Svensson tók í sama streng og Nyegaard. „Ég held að þetta sé slæmt fyrir EM. Við fáum ekki lengur möguleikann á troðfullri höll eins og ef Ungverjar hefðu komist áfram. Það hefði verið öruggt þegar Ungverjaland spilaði,“ sagði Svensson.

„Milliriðilinn líður fyrir þetta, sérstaklega þar sem við upplifðum svo frábæra stemmningu þegar Ungverjar spiluðu.“

Ísland mætir heimsmeisturum Danmerkur í fyrsta leik sínum í milliriðli annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×