Handbolti

„Er ekki hvort sem er hundleiðinlegt að vera á Íslandi núna?“

Sindri Sverrisson skrifar
Elliði Snær Viðarsson sækir að hollensku vörninni í sigrinum á EM í kvöld.
Elliði Snær Viðarsson sækir að hollensku vörninni í sigrinum á EM í kvöld. EPA-EFE/Tamas Kovacs

„Þetta var drullusætt,“ sagði Eyjamaðurinn Elliði Snær Viðarsson sem naut þess í botn að spila fyrir framan háværa áhorfendur í Búdapest í kvöld, á EM í handbolta.

Elliði skoraði tvö mörk í 29-28 sigri Íslands gegn Hollandi.

„Mér leið mjög vel, fyrir utan kannski tvö slök skot þó að ég hefði reyndar viljað víti í því fyrra. Það er gaman að fá loksins að spila landsleik fyrir framan áhorfendur, og það var frábær stemning í stúkunni,“ sagði Elliði glaðbeittur.

Klippa: Elliði eftir sigurinn á Hollandi

„Er ekki hvort sem er hundleiðinlegt að vera á Íslandi núna? Einhverjar fjöldatakmarkanir og svona. Ég hvet alla til að koma hingað út og fylgja okkur sem lengst,“ bætti línumaðurinn ungi við hress.

Ísland komst fimm mörkum yfir í seinni hálfleik en missti forskotið hratt niður og mikil spenna var í lokin. Elliði sagði 5-1 vörnina sem Erlingur Richardsson hefði beitt, sem Elliði lék í undir stjórn Erlings hjá ÍBV, hafa hjálpað Hollendingum mikið að éta upp forskotið:

„Ég hef svo sem verið hinu megin nokkrum sinnum, þar sem við spilum þessa Eyjavörn og hin liðin eru með forystu, og þetta getur verið drulluerfitt þegar það koma 2-3 mörk og það myndast smá stemning. Það var gaman að prófa að vera hinu megin borðsins og landa þessu,“ sagði Elliði.

„Þetta var ekkert „surprise“ en það er hægara sagt en gert að díla við þetta,“ bætti hann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×