Fótbolti

Dæmdur í fjögurra ára keppnis­bann vegna veð­mála­svindls

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pawel Cibicki í leik með Elfsborg.
Pawel Cibicki í leik með Elfsborg. EPA-EFE/Adam Ihse

Sænski knattspyrnumaðurinn Pawel Cibicki hefur verið dæmdur í fjögurra ára keppnisbann vegna veðmálasvindls. Frá þessu greindi alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, í gær.

Í desember greindi Vísir frá því að Cibicki hefði fengið tveggja ára skilorðsbundinn dóm fyrir að ná sér vísvitandi í gult spjald í leik gegn greiðslu. Þá hafði sænska knattspyrnusambandið dæmt Cibicki í fjögurra ára keppnisbann innan Svíþjóðar.

Árið 2019 var Cibicki á láni hjá sænska úrvalsdeildarfélaginu Elfsborg frá Leeds United í Englandi. Talið er að leikmaðurinn hafi fengið 4,3 milljónir króna fyrir að fá gult spjald í leik Elfsborg og Kalmar.

Þegar skammt var til leiks voru opnaðir 27 nýir veðmálareikningar þar sem veðjað var á að Cibicki fengi spjald. Hinn 27 ára gamli Cibicki hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu og vildi meina að milljónirnar sem hann fékk hefðu verið lán.

Cibicki er í dag leikmaður Pogon Szczecin í Póllandi og því hafði dómur sænska knattspyrnusambandsins engin áhrif á hann. Nú hefur FIFA hins vegar ákveðið að gera slíkt hið sama og dæma hann í fjögurra ára bann. Bannið nær yfir öll aðildarlönd FIFA.

Cibicki lék með Leeds frá 2017-2020 en spilaði lítið og var lánaður til Molde í Noregi, Elfsborg í Svíþjóð og ADO Den Haag í Hollandi. Síðustu tvö ár hefur hann verið leikmaður Pogon Szczecin í Póllandi.

Hann hefur áfrýjað máli sínu í Svíþjóð og ef sænska íþróttsambandið kemst að annarri niðurstöðu en knattspyrnusamband landsins gæti farið svo að FIFA breyti ákvörðun sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×