Handbolti

Strákarnir okkar halda sig fjarri fjölskyldu og vinum á Íslandi

Sindri Sverrisson skrifar
Íþróttamaður ársins, Ómar Ingi Magnússon, er einn af tuttugu EM-förum Íslands sem verða saman á hóteli nær allan næsta mánuð ef vel gengur á EM.
Íþróttamaður ársins, Ómar Ingi Magnússon, er einn af tuttugu EM-förum Íslands sem verða saman á hóteli nær allan næsta mánuð ef vel gengur á EM. vísir/hulda margrét

Strákarnir okkar í íslenska handboltalandsliðinu munu halda sig frá fjölskyldu og vinum þann tíma sem þeir dvelja hér á landi í upphafi nýs árs.

Íslenska liðið mun dvelja á Grand Hóteli frá 2. janúar og þar til að það heldur af landi brott á EM, til Búdapest í Ungerjalandi, 11. janúar.

Þetta staðfesti Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, við handbolta.is í dag.

Eins og Vísir greindi frá á dögunum voru þá tveir af tuttugu leikmönnum íslenska hópsins smitaðir af kórónuveirunni. Það kemur þó ekki til með að hafa áhrif á undirbúning íslenska liðsins og miðað við núverandi stöðu ættu allir leikmenn að geta mætt á fyrstu æfingu 2. janúar.

Kórónuveirusmit hafa einnig komið upp hjá fyrstu andstæðingum Íslands á EM, Portúgölum, sem og Frökkum og fleiri þjóðum.

Vanalega hafa leikmenn íslenska liðsins ekki gist á hóteli þegar þeir koma saman á Íslandi í aðdraganda stórmóts en vegna stöðu kórónuveirufaraldursins þótti ekki annað í stöðunni en að þeir yrðu á hóteli, aðgreindir frá öðrum, til að lágmarka smithættu í aðdraganda EM. Samskipti þeirra við fjölskyldu og vini verða að vera rafræn.

Hótellífið hefst því fyrr en ella hjá íslenska hópnum sem leikur sinn fyrsta leik á EM 14. janúar, gegn Portúgal, og á svo leiki við Holland 16. janúar og Ungverjaland 18. janúar. 

Komist Ísland áfram í milliriðla, sem annað af tveimur efstu liðum B-riðils, mun liðið leika að minnsta kosti fjóra leiki til viðbótar í Búdapest dagana 20.-26. janúar.

Ísland á að spila tvo vináttulandsleiki gegn Litháen hér á landi áður en haldið verður á EM og eru þeir enn á dagskrá 7. og 9. janúar að sögn Róberts.


Tengdar fréttir

Ómar Ingi íþróttamaður ársins

Selfyssingurinn Ómar Ingi Magnússon er íþróttamaður ársins 2021. Hann varð efstur í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna en litlu munaði á tveimur efstu íþróttamönnunum í ár.

Ísland mun leika í stærstu handboltahöll Evrópu

Evrópumótið í handbolta er á næsta leiti, en leikið verður í Ungverjalandi og Slóvakíu. Ísland er með Ungverjum í riðli og verður sá riðill leikinn í nýbyggðri handboltahöll í Búdapest sem er sú stærsta í Evrópu.

Óvissa um framhaldið hjá Guðmundi eftir EM

Guðmundur Guðmundsson segir of snemmt að velta því fyrir sér hvort að hann verði áfram þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta að afloknu Evrópumótinu í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar.

„Höfum áður farið í gegnum mjög erfiða riðla“

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari í handbolta segir ljóst að fyrsti leikur á EM, gegn liðinu sem Íslendingar hafa kynnst svo vel á síðustu misserum, sé algjör lykilleikur upp á möguleikann á að komast áfram í milliriðla.

EM-hópur Íslands í Búdapest

Nú er orðið ljóst hvaða leikmenn fara fyrir Íslands hönd á Evrópumótið í handbolta karla í janúar, þar sem Ísland mun spila sína leiki í Búdapest, höfuðborg Ungverjalands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×