Thomas Ouwejan kom Schalke yfir eftir tæplega tuttugu mínútna leik og sá til þess að staðan var 1-0 þegar gengið var til búningsherbergja.
Fabian Nurnberger jafnaði metin fyrir gestina á 49. mínútu, en heimamenn tóku forystuna á ný þegar Manuel Schaffler varð fyrir því óláni að setja boltann í sitt eigið net á 66. mínútu leiksins.
Darko Churlinov gerði svo út um leikinn þegar hann kom Schalke 3-1 rúmum fimm mínútum fyrir leikslok og Ko Itakura stráði salti í sárin þegar hann kom heimamönnum í þriggja marka forystu í uppbótartíma. Lokatölur urðu því 4-1.
Schalke er nú eins og áður segir í þriðja sæti þýsku B-deildarinnar með 29 stig eftir 17 leiki, sex stigum á eftir St. Pauli sem sitja á toppnum. Nürnberg situr hins vegar í sjötta sæti með 27 stig.