Frá þessu er greint á opinberri heimasíðu Bayern München, en fyrr á árinu olli Kimmich usla í Þýskalandi þegar hann viðraði skoðanir sínar um bólusetningu og sagðist hafa persónulegar áhyggjur af bóluefninu gegn kórónuveirunni.
Nú eru alls fimm leikmenn liðsins í sóttkví vegna veirunnar. Leikmennirnir fimm eru þeir Joshua Kimmich, Serge Gnabry, Eric Maxim Choupo-Moting, Jamal Musiala og Michael Cuisance. Fyrr í dag greindi félagið frá því að Chupo-Moting hefði greinst með veiruna og í seinustu viku greindist liðsfélagi þeirra, Niklas Süle, einnig með veiruna.
Samkvæmt heimildum þýska miðilsins Bild mun Bayern München lækka laun leikmannana á meðan þeir eru í sóttkví, en félagið sjálft hefur ekki tjáð sig um þær sögusagnir.
Þrátt fyrir að Bayern sitji á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar og sé með fullt hús stiga í Meistaradeildinni hefur fjarvera leikmanna vegna kórónuveirunnar haft áhrif á úrslit félagsins. Bayern tapaði óvænt gegn Augsburg síðastliðinn föstudag, en eftir tíu daga mætir liðið Borussia Dortmund í toppslag þýsku deildarinnar.