Fótbolti

Sveindís Jane meðal tíu bestu í Svíþjóð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sveindís Jane hleður í eitt af sínum frægu innköstum.
Sveindís Jane hleður í eitt af sínum frægu innköstum. Vísir/Hulda Margrét

Íslenska landsliðskonan Sveindís Jane Jónsdóttir var í 10. sæti yfir bestu 50 leikmenn sænsku úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu að mati miðilsins Damallsvenskan Nyheter.

Miðillinn sérhæfir sig í Damallsvenskan, úrvalsdeild kvenna í Svíþjóð, og voru alls tveir Íslendingar meðal 50 bestu leikmanna deildarinnar. Guðrún Arnardóttir, miðvörður Svíþjóðarmeistara Rosengård var í 30. sæti og Sveindís Jane var svo í 10. sæti.

Sveindís Jane var á láni hjá Kristianstad eftir að hafa samið við þýska stórliðið Wolfsburg undir lok síðasta árs. Sveindís Jane lék alls 19 leiki með Kristianstad og skoraði í þeim sex mörk.

Átti hún sinn þátt í að liðið endaði í 3. sæti og vann sér þar með inn þátttökurétt í undankeppni Meistaradeildar Evrópu á næstu leiktíð.

„Þessi ofurefnilegi Íslendingur átti frábært tímabil. Ein af fljótustu leikmönnum deildarinnar og með frábæra tækni, hún ferðast með boltann á leifturhraða. Einnig getur hún tekið óhugnalega löng innköst, sem er mjög gott vopn sóknarlega,“ segir um Sveindísi Jane og frammistöðu hennar á tímabilinu.


Sænska úrvalsdeildin er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Sænski boltinn er hluti af Stöð 2 Sport Erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×