Fótbolti

Sveindís Jane komið að tíu mörkum á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir í leik með íslenska landsliðinu
Sveindís Jane Jónsdóttir í leik með íslenska landsliðinu Vísir/Vilhelm

Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði eitt marka Kristianstad í 4-1 sigri á Djurgården í sænsku kvennadeildinni í fótbolta í gær.

Með þessu marki þá er Sveindís Jane búin að eiga þátt í tíu mörkum hjá Kristianstad-liðinu á sínu fyrsta tímabili í sænsku deildinni.

Sveindís hefur skorað sex mörk í sautján leikjum og gefið fjórar stoðsendingar að auki.

Það má sjá mörkin úr leiknum hér fyrir neðan en mark Sveindísar var annað mark Kristianstad í leiknum.

Keflvíkingurinn er í fjórða til sjötta sæti á listanum yfir þá leikmenn sam hafa komið að flestum mörkum á tímabilinu.

Það eru bara Stina Blackstenius hjá Häcken (14 mörk + 8 stoðsendingar), Olivia Schough hjá Rosengård (11 mörk + 7 stoðsendingar) og Madelen Janogy hjá Hammarby (9 mörk + 5 stoðsendingar) sem eru fyrir ofan Sveindísi á listanum.

Tvær aðrar hafa líka komið að tíu mörkum. Emilia Larsson hjá Hammarby og Uchenna Grace Kanu hjá Linköping, en báðar hafa þær spilað fleiri leiki en íslenska landsliðskonan.

Þetta er fyrsta tímabil Sveindísar í atvinnumennsku en hún kom að 29 mörkum með Breiðabliksliðinu í Pepsi Max deild kvenna í fyrrasumar og að 17 mörkum með Keflavík tímabilið á undan.

Næst á dagskrá hjá Sveindísi eru tveir landsleikir á Laugardalsvellinum en sá fyrri er á móti Tékkum á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×