Fótbolti

Iniesta: Verður sárt að sjá Messi í annarri treyju

Valur Páll Eiríksson skrifar
Andrés Iniesta og Lionel Messi voru liðsfélagar um árabil.
Andrés Iniesta og Lionel Messi voru liðsfélagar um árabil. Quality Sport Images/Getty Images

Andrés Iniesta, leikmaður Vissel Kobe í Japan og goðsögn hjá spænska stórveldinu Barcelona, segir synd og skömm að Lionel Messi hafi yfirgefið Katalóníurisann.

Iniesta lék um árabil á miðju Barcelona á einu stærsta sigurskeiði félagsins, ásamt Messi. Saman hafa þeir unnið fjölmarga deildar-, bikar og Meistaradeildartitla en Iniesta segir erfitt að sjá á eftir Messi frá félaginu.

„Ég veit ekki hvað átti sér stað á bakvið tjöldin, eða hvernig hlutirnir atvikuðust, en félagið mun þurfa að jafna sig eftir þessi skipti, segir Iniesta en Messi skrifaði undir hjá Paris Saint-Germain í Frakklandi í gær.

„Það verður sárt að sjá hann í treyju annars félags. Leo er persónugerving Barcelona. Hann var allt, hann er leikmaður sem lyftir félaginu upp. Ég hef aldrei séð leikmann eins og hann og held ég sjái aldrei hans líka,“ segir Iniesta jafnframt.

Iniesta er uppalinn hjá Barcelona og lék fyrir aðallið félagsins frá 2002 til 2018. Þá færði hann sig til Vissel Kobe sem er í eigu japanska fyrirtækisins Rakuten, sem er aðalstyrkaraðili Barcelona. Hann er 37 ára gamall og hefur leikið 71 deildarleik fyrir japanska liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×