Á fundinum lagði Kolbrún Ada Gunnarsdóttir, forseti sveitarstjórnar og fulltrúi Vinstri grænna, fram tillögu sína um að fallið yrði alfarið frá áformum um byggingu vindorkuversins í aðalskipulagi sveitarfélagsins og allri umfjöllun um það yrði frestað þar til umhverfismati væri lokið að fullu.
„ Með þeim hætti verði málsmeðferð best háttað enda liggja þá niðurstöður ítarlegra rannsókna, upplýsingaöflunar og opinbers samráðs fyrir áður en sveitarstjórn tekur sínar veigamiklu stefnumarkandi ákvarðanir um landnýtingu í gegnum Aðalskipulag,“ segir í tillögu Kolbrúnar Ödu.

Deila áhyggjunum
Byggðarráð tók tillöguna fyrir og ákvað að fresta afgreiðslu hennar fram í ágúst. Ráðið tekur þó undir áhyggjur Kolbrúnar Ödu og segir ljóst að málið sé umdeilt.
Sveitarstjóra er nú falið að efna til íbúakönnunar um afstöðu íbúa til fyrirhugaðra framkvæmda og spyrja hvort þeir séu hlynntir fyrirhugaðri breytingu á aðalskipulagi eða mótfallnir hugmyndinni um vindorkuver á Melrakkasléttu.
Byggðarráðið felur sveitarstjóranum einnig að upplýsa þá sem ætlað er að sjá um framkvæmdina við vindorkuverið um tillögu Kolbrúnar Ödu og stöðu mála. Sveitarstjóri Norðurþings er Kristján Þór Magnússon.