Fótbolti

Félagar Hlínar sendu lið Hallberu í fallsæti

Valur Páll Eiríksson skrifar
Hallbera og liðsfélagar hennar í AIK hafa átt strembnu gengi að fagna undanfarið.
Hallbera og liðsfélagar hennar í AIK hafa átt strembnu gengi að fagna undanfarið. vísir/vilhelm

11. umferð úrvalsdeildar kvenna í fótbolta í Svíþjóð hófst í kvöld með einum leik. Piteå rúllaði yfir AIK 4-0 í fallslag.

Aðeins tvö stig aðskildu liðin fyrir leik kvöldsins þar sem Piteå var í 11. sæti, fallsæti, með sjö stig, en AIK með níu stig í 10. sæti.

Hlín Eiríksdóttir glímir enn við meiðsli og var ekki í leikmannahópi Piteå en Hallbera Gísladóttir var að venju í byrjunarliði AIK og spilaði allan leikinn.

Selina Henriksson kom Piteå yfir eftir aðeins ellefu mínútna leik og á 35. mínútu tvöfaldaði Astrid Larsson forystu heimakvenna. 2-0 stóð í hléi. Jennie Nordin skoraði þriðja mark Piteå úr vítaspyrnu tíu mínútum fyrir leikslok, áður en hin nígeríska Anam Imo innsiglaði 4-0 sigur liðsins á 88. mínútu.

Með sigrinum fer liðið upp fyrir AIK í 10. sætið, með tíu stig, líkt og Örebrö, lið Berglindar Rósar Ágústsdóttur og Cecilíu Ránar Rúnarsdóttur, og Djurgården, lið Guðrúnar Arnardóttur, sem bæði eiga leik inni.

AIK var hins vegar að tapa sínum þriðja leik í röð, þar sem liðið er með markatöluna 0-16, og er komið í fallsæti.

Á morgun fer fram leikur Häcken við Íslendingalið Kristianstad klukkan 17:00 og verður hann sýndur beint á Stöð 2 Sport 3.

Sænska úrvalsdeildin er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Sænski boltinn er hluti af Stöð 2 Sport Erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×