Fótbolti

Xavi tilbúinn að taka við Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xavi Hernandez í leik með Barcelona þar sem hann spilaði í sautján ár með meistaraflokksliðinu.
Xavi Hernandez í leik með Barcelona þar sem hann spilaði í sautján ár með meistaraflokksliðinu. EPA/MARCUS BRANDT

Xavi Hernandez segist nú vera klár í það að taka við liði Barcelona og segir að það yrðu forréttindi fyrir hann að fá að þjálfa sinn gamla liðsfélaga Lionel Messi.

Xavi var enn á ný orðaður við þjálfarastarfið hjá Barcelona fyrr í sumar en forsetinn Joan Laporta ákvað að leyfa Ronald Koeman að halda áfram með Börsunga þrátt fyrir brösugt tímabil.

Xavi hefur ekki verið í neinu sambandi við Joan Laporta síðan að Laporta settist aftur í forsetastólinn í mars. ESPN sagði frá því að Xavi væri nú klár í það að taka við Barcelona í framtíðinni.

„Ég er alltaf á markaðnum. Félagið ákvað að halda áfram með Koeman og ég óska honum alls hins besta. Ég hef ekki heyrt i Laporta eða öðrum stjórnarmönnum undanfarna fjóra mánuði,“ sagði Xavi þegar hann hitti blaðamenn í tengslum við sumarbúðir sínar í Katalóníu.

„Ég veit ekki hvenær tækifærið kemur en það yrði draumur fyrir mig að snúa aftur til Barcelona einn daginn. Ég er samt ekkert að flýta mér ef ég segi alveg eins og er en ég vona að þetta gerist einhvern tímann,“ sagði Xavi.

Xavi Hernandez lék með Barcelona í 24 ár eða frá því að hann kom inn í akademíu félagsins árið 1991. Hann vann Meistaradeildina fjórum sinnum með Barcelona og spænsku deildina átta sinnum.

Xavi lék alls 767 leiki fyrir Barcelona frá 1998til 2015 þar af 505 þeirra í spænsku deildinni.

Honum hefur tvisvar verið boðið þjálfarastarfið hjá Barcelona en neitað í bæði skiptin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×