Hinn sextugi Matthäus lék með Bayern frá árunum 1984 til 1988 og aftur frá 1992 til 2000. Hann þekkir því ágætlega til í herbúðum Bæjara. Þessi magnaði leikmaður spilaði einnig 150 landsleiki fyrir Þýskaland.
Síðan skórnir fóru á hilluna um aldamótin hefur hann bæði þjálfað sem og unnið sem sérfræðingur í sjónvarpi. Matthäus staðfesti við Sky Sports í Þýskalandi að Flick myndi taka við þýska landsliðinu í sumar þegar Evrópumótinu er lokið.
„Það er tilboð á borðinu frá DFB [þýska knattspyrnusambandinu] og Bayern hefur nú þegar talað við [Julian] Nagelsmann. Sambandið vill Flick og ég held – eða raunar er ég sannfærður – um að hann verði ekki þjálfari Bayern á næstu leiktíð,“ sagði Matthäus.
Orðrómar um ósætti milli Flick og yfirmanna hans hjá Bayern hafa verið á kreiki undanfarnar vikur. Þá var hann aðstoðarþjálfari þýska landsliðsins frá 2006 til 2014 og ku vilja snúa aftur í þægilegan faðm þýska sambandsins.
Bayern stefnir á að ráða þýskan þjálfara en ásamt Nagelsmann hefur Jürgen Klopp verið nefndur til sögunnar.
Bayern datt í gær út úr Meistaradeild Evrópu eftir að hafa gert 3-3 jafntefli við Paris Saint-Germain í tveimur leikjum er liðin mættust í 8-liða úrslitum. Bæjarar féllu úr leik þar sem PSG skoraði fleiri mörk á útivelli í einvíginu.
Síðasta skipting Flick í leiknum vakti athygli. Mögulega var það hans síðasta skipting í Meistaradeild Evrópu með Bayern ef Matthäus hefur rétt fyrir sér.