Fótbolti

Ari Freyr til Norrköping

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ari Freyr flytur sig frá Belgíu til Svíþjóðar.
Ari Freyr flytur sig frá Belgíu til Svíþjóðar. TF-Images/Getty Images

Ari Freyr Skúlason er genginn í raðir IFK Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en þetta var staðfest í dag.

Ari kemur úr belgíska boltanum þar sem hann hefur leikið frá árinu 2016. Fyrst með Lokeren en síðan 2019 með Ostend. Hann hefur leikið 110 leiki í Belgíu.

„Ari er nákvæmlega það sem við þurfum. Hann hefur mikla reynslu og hann hefur verið landsliðsmaður í langan tíma og spilað í belgísku úrvalsdeildinni,“ sagði á heimasíðu félagsins.

„Ari hefur aðallega spilað vinstri bakvörð og kant en ég sé hann einnig geta spilað inn á miðjunni í því hvernig við viljum spila. Það eru margir sem fylgjast með Ísaki Bergmanni og með Ara erum við sterkir bæði til styttri og lengri tíma.“

Hinn 33 ára gamli Ari er nú með íslenska landsliðinu í Liechtenstein þar sem liðið mætir heimamönnum í kvöld. Ari er á varamannabekknum í leik kvöldsins en hann hefur spilað 79 landsleiki.

Hjá Norrköping eru nú þegar Ísak Bergmann Jóhannesson, Finnur Tómas Pálmason og Oliver Stefánsson. Bjarni Guðjónsson þjálfar svo U19 ára lið félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×