Innlent

Vanmetinn „hálftími hálfvitanna“

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Sara Elísa Þórðardóttir, þingmaður Pírata.
Sara Elísa Þórðardóttir, þingmaður Pírata. Vísir/VIlhelm

Umræður um störf þingsins fara nú fram einu sinni í viku en ekki tvisvar eftir að skipulagi þingvikunnar var breytt í tilraunaskyni. Þingmaður Pírata gerir athugasemd  við það og segir umræðuna dýrmæta fyrir lýðræðið.

Sara Elísa vísaði til þess að dagskrárliðurinn hafi oft verið nefndur „hálftími hálfvitanna“ enda eru almennt þrjátíu mínútur lagðar þar undir.

„Í störfum þingsins fá þingmenn tækifæri til að tjá sig á eins óháðan hátt og í raun gerist hér í þingsal. Þetta er dýnamískur dagskrárliður, hann getur verið ögrandi. Hann kveikir oft upp í málefnum eða hugmyndum sem annars hefðu alls ekki jafn hæglega fundið sér farveg hingað inn í þingsal,“ sagði Sara Elísa Þórðardóttir, þingkona Pírata, á Alþingi í dag.

„Hálftími hálfvitanna er að mínu mati, virðulegi forseti, einn vanmetnasti dagskrárliður þingsins. Og ekki er hann nú tímafrekur eða ófyrirsjáanlegur, þetta er bara hálftími og hálftími tekur bara hálftíma,“ sagði Sara.

„Ég sendi hér hvatningu mína á þingheim til að standa vörð um þennan dýrmæta dagskrárlið sem störf þingsins eru því að ég fullyrði að hann er dýrmætur fyrir lýðræðið sjálft.“ 

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, áréttaði að lokinni ræðunni að umræddur dagskrárliður væri nefndur störf þingsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×